Guðmundur samdi í New York

Guðmundur Þórarinsson er þriðji Íslendingurinn til þess að spila í …
Guðmundur Þórarinsson er þriðji Íslendingurinn til þess að spila í bandarísku MLS-deildinni. AFP

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Þórarinsson er genginn til liðs við bandaríska félagið New York City en þetta staðfesti félagið á Twitter-síðu sinni í kvöld. Guðmundur kemur til félagsins frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Norrköping þar sem hann hefur leikið frá árinu 2017 en samningur hans var á enda í Svíþjóð.

New York City leikur í bandarísku MLS-deildinni en Norðmaðurinn Ronny Deila tók við þjálfun liðsins í þessum mánuði. Hann þjálfaði áður norska úrvalsdeildarliðið Vålerenga í fjögur ár. New York City vann Austurdeild MLS-deildarinnar á síðustu leiktíð en féll úr leik í undanúrslitum úrslitakeppninnar.

Guðmundur verður þriðji Íslendingurinn til þess að spila í bandarísku MLS-deildinni, á eftir þeim Guðlaugi Victori Pálssyni og Kristni Steindórssyni. Guðlaugur lék með New York Red Bulls árið 2012 og Kristinn með Columbus Crew árið 2015. Þá lék Þórólfur Beck með St. Louis Stars 1967 og Jóhannes Eðvaldsson með Tulsa Roughnecks 1980-81 en þá hét deildin NASL.

Deildin hefst 1. mars næstkomandi og Guðmundur og samherjar hans í New York City hefja leik gegn Columbus Crew á útivelli. Knattspyrnugoðsagnir á borð við Frank Lampard, Andrea Pirlo og David Villa hafa allir leikið með New York City á ferlinum en félagið er aðeins sjö ára gamalt, stofnað árið 2013, og leikur á Yankee Stadium í Bronx-hverfinu í New York. Síðasta tímabil var það fimmta hjá félaginu í MLS-deildinni.

Guðmundur, sem er 27 ára gamall, á að baki fimm A-landsleiki fyrir Ísland. Hann er uppalinn á Selfossi og lék með meistaraflokki þar 2008 til 2010 en síðan með ÍBV í tvö ár. Hann hefur síðan leikið með Sarpsborg í Noregi, Nordsjælland í Danmörku og Rosenborg í Noregi en með Norrköping undanfarin þrjú ár þar sem hann spilaði 84 af 90 leikjum liðsins í úrvalsdeildinni á þessum þremur árum.

Tveir aðrir landsliðsmenn af Norðurlöndum leika með New York City, finnski miðjumaðurinn Alexander Ring og sænski varnarmaðurinn Anton Tinnerholm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert