Besta ákvörðunin á ferlinum að fara til Íslands

Brandur Olsen í leik með FH gegn KR síðasta sumar.
Brandur Olsen í leik með FH gegn KR síðasta sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færeyski knattspyrnumaðurinn Brandur Olsen, sem lék með FH-ingum undanfarin tvö keppnistímabil, segir að það hafi verið sín besta ákvörðun á ferlinum að fara til Íslands og spila þar.

Brandur skoraði 13 mörk í 39 leikjum með FH í úrvalsdeildinni og kom ferlinum í gang eftir alvarleg meiðsli en hann gekk til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið Helsingborg í vetur.

„Ég sleit krossband í hné og var þar af leiðandi frá keppni í meira en ár. Ég fór til Íslands til að komast aftur í gang, þar sem ég fékk ekki tækifæri til þess í Danmörku, og það er besta ákvörðun sem ég hef tekið á ferlinum. Þar með komst ég aftur á rétta braut," segir Brandur við sænska netmiðilinn Fotbollskanalen.

Brandur ólst upp hjá FC København og spilaði einnig með Vendsyssel og Randers áður en hann kom til Íslands. Hann er 24 ára gamall og hefur þegar leikið 32 landsleiki fyrir Færeyjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert