Can nálgast brottför

Emre Can hefur verið í algjöru aukahlutverki hjá Juventus á …
Emre Can hefur verið í algjöru aukahlutverki hjá Juventus á þessari leiktíð. AFP

Emre Can er að ganga til liðs við þýska knattspyrnufélagið Borussia Dortmund en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Can er samningsbundinn Juventus en hann hefur lítið sem ekkert fengið að spila síðan Maurizio Sarri tók við stjórnartaumunum hjá félaginu síðasta sumar.

Can kom til Juventus á frjálsri sölu frá Liverpool, sumarið 2018, og var lykilmaður hjá ítölsku meisturunum á síðustu leiktíð. Hann virðist hins vegar ekki eiga mikla samleið með Sarri, sem valdi þýska miðjumanninn ekki í meistaradeildarhóp sinn fyrir tímabilið.

Can er 26 ára gamall og uppalinn hjá Bayern München. Hann hefur einnig verið orðaður við endurkomu til uppeldisfélags síns en Dortmund virðist vera að hafa betur í baráttunni um leikmanninn sem þarf að taka á sig talsverða launalækkun í Þýskalandi.

Þýski landsliðsmaðurinn hefur verið sterklega orðaður við endurkomu í ensku úrvalsdeildina undanfarnar vikur, en bæði Arsenal og Manchester United voru sögð áhugasöm um leikmanninn sem á að baki 25 landsleiki fyrir Þýskaland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert