Danir hætta við leik vegna kórónaveirunnar

Wuhan er hættusvæði vegna kórónaveirunnar og fótboltalið borgarinnar fær ekki …
Wuhan er hættusvæði vegna kórónaveirunnar og fótboltalið borgarinnar fær ekki að spila við AaB. AFP

Danska knattspyrnuliðið AaB er hætt við að leika æfingaleik gegn kínverska liðinu Wuhan Zall sem fram átti að fara á Spáni í næstu viku, af ótta við kórónaveiruna sem á sér rætur í heimaborg kínverska liðsins, Wuhan.

Thomas Bælum, stjórnarmaður AaB, segir við bold.dk að vissulega væri smithættan sáralítil en eftir samráð milli stjórnar, þjálfarateymis og heilbrigðisyfirvalda hafi verið ákveðið að taka enga áhættu með leikmenn, þjálfara og forráðamenn liðsins.

„Þetta er auðvitað svekkjandi, ef við finnum ekki annan andstæðing til að mæta í æfingabúðunum, en í stóra samhenginu er þessi staða þó verst fyrir leikmenn Wuhan og landa þeirra,“ sagði Bælum.

Sölvi Geir Ottesen, núverandi fyrirliði Víkings í Reykjavík, lék með Wuhan Zall árið 2016 og var þá fyrirliði liðsins.

mbl.is