Kínverska kvennalandsliðið í sóttkví í Ástralíu

Kínverska kvennalandsliðið er í sóttkví í Ástralíu vegna kórónaveirunnar. Hér …
Kínverska kvennalandsliðið er í sóttkví í Ástralíu vegna kórónaveirunnar. Hér sjást liðsmenn kínverska landsliðsins sækja að Margréti Láru Viðarsdóttur í leik Kína og Íslands á Algarve-æfingamótinu fyrir allnokkrum árum. Carlos Vidigal/Algarvephotopress

Kínverska kvennalandsliðið í fótbolta hefur verið sett í sóttkví á hóteli sínu í Brisbane í Ástralíu, en þangað er liðið komið til þess að taka þátt í undankeppni Ólympíuleikanna. Enginn leikmaður liðsins hefur greinst með kórónaveiruna, en ákveðið var að grípa til þessara ráðstafana í varúðarskyni, þar sem liðið flaug til Ástralíu frá Wuhan í Kína.

„Liðið hefur verið ótrúlega samvinnuþýtt og sömuleiðis kínverska sendiráðið,“ sagði Jeannette Young frá heilbrigðisyfirvöldum í Queensland-fylki við ABC-fréttastofuna í Ástralíu. Hún bætti því við að ef einhver knattspyrnukvennanna sýndi einkenni veirunnar yrði umsvifalaust hlúð að viðkomandi á spítala.

Undanriðillinn átti að vera í Wuhan

Fjögur lið taka þátt í þessum asíska undanriðli fyrir Ólympíuleikana í Tókíó í sumar, en auk landsliða Kína og Ástralíu munu Taívan og Taíland keppast um laust sæti á leikunum. Upprunalega átti undanriðillinn að fara fram í Wuhan í Kína, en hann var færður þaðan og til Sydney í Ástralíu vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Ráðgert er að leikirnir fari þar fram í næstu viku, en fjórir leikmenn kínverska liðsins komust ekki með í keppnisferðina sökum ferðatakmarkana kínverskra yfirvalda. Kínverska knattspyrnusambandið segir að allir leikmenn liðsins hafi verið skoðaðir af læknum og enginn þeirra hafi greinst með veiruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert