Spenntur fyrir Aroni sem stefnir hátt í Svíþjóð

Aron Jóhannsson í Evrópuleik með AZ Alkmaar fyrir nokkrum árum. …
Aron Jóhannsson í Evrópuleik með AZ Alkmaar fyrir nokkrum árum. Hann vonast til að ná sér vel á strik með Hammarby í ár. AFP

Stefan Billborn, þjálfari sænska knattspyrnuliðsins Hammarby, kveðst vera fullviss um að Aron Jóhannsson eigi eftir að springa út með liðinu á komandi keppnistímabili og sjálfur setur Aron markið hátt með Stokkhólmsliðinu.

Aron gekk til liðs við Hammarby síðasta sumar og lék tíu leiki í úrvalsdeildinni seinni hluta tímabilsins, fjóra þeirra í byrjunarliðinu. Hann hefur glímt við þrálát meiðsli undanfarin ár og náði aðeins að spila 28 deildaleiki á fjórum árum með þýska liðinu Werder Bremen, einungis einn á síðasta tímabili, 2018-'19.

Billborn segir við Fotbollskanalen að hann eigi von á að Aron verði allt annar leikmaður í ár en sá sem stuðningsmenn félagsins sáu á síðasta tímabili.

„Hann verður stöðugt betri eftir því sem hann fær lengra undirbúningstímabil enda hefur hann verið meira og minna meiddur í þrjú og hálft ár. Aron var áður allt of góður til að spila í sænsku úrvalsdeildinni og það að hafa verið í treyju númer níu hjá Werder Bremen talar sínu máli. En hjá honum snýst allt um að vera heill heilsu og allir leikir sem hann spilar núna eru honum í hag," sagði Billborn eftir að Aron hafði leikið einn hálfleik í 4:0 ósigri gegn danska toppliðinu Midtjylland í æfingaleik.

Aron er 29 ára gamall, uppalinn hjá Fjölni og lék með AGF í Danmörku og AZ í Hollandi áður en Werder Bremen keypti hann árið 2015. Aron valdi á sínum tíma að leika fyrir hönd Bandaríkjanna, þar sem hann var fæddur þar, og kom við sögu með bandaríska landsliðinu á HM í Brasilíu 2014. Hann hefur hins vegar ekki leikið með liðinu í fjögur ár og á 19 landsleiki að baki þar sem hann hefur skorað fjögur mörk.

„Mér líður virkilega vel núna og er mjög jákvæður. Ég ætla ekki að hugsa um síðasta tímabil heldur einbeita mér að því næsta. Vonandi get ég leikið stórt hlutverk í liðinu og mitt markmið er að spila alla leiki og hverja einustu mínútu. Ég hlakka mikið til,“ sagði Aron við Fotbollskanalen.

„Síðasta tímabil var ekki gott hjá mér, ég var í erfiðri stöðu þegar ég kom hingað og var alls ekki heill heilsu. En nú er það að baki og ég ætla mér að standa mig vel með Hammarby. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að skora eins mörg mörk og mögulegt er. Við viljum vera í baráttu um toppsætin í úrvalsdeildinni og ég vil slást um markakóngstitilinn,“ sagði Aron Jóhannsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert