Metið fallið og alls ekki hætt

Christine Sinclair fagnar marki fyrir Kanada.
Christine Sinclair fagnar marki fyrir Kanada. AFP

Christine Sinclair frá Kanada er orðin markahæsta landsliðskona heims í fótbolta frá upphafi eftir að hafa skorað tvívegis fyrir landslið þjóðar sinnar í vikunni. 

Hún gerði þá tvö mörk á fyrstu 20 mínútunum þegar Kanada vann yfirburðasigur á St. Kitts og Nevis, 11:0, í undankeppni fyrir Ólympíuleikana sem nú stendur yfir í Texas.

Sinclair jafnaði metið þegar hún skoraði strax á 7. mínútu og sló það 15 mínútum síðar. Hún hefur nú skorað 185 mörk í 290 landsleikjum fyrir Kanada.

Áður hafði Abby Wambach skorað 184 mörk fyrir bandaríska landsliðið. Þær tvær eru langmarkahæstar en Mia Hamm er þriðja með 158 mörk fyrir Bandaríkin. Af körlum er Ali Daei markahæstur landsliðsmanna með 109 mörk fyrir Íran en níu konur hafa gert fleiri mörk en hann.

Sinclair er þriðja leikjahæst frá upphafi en hinar bandarísku Kristine Lilly (352) og Christie Rampone (311) hafa spilað fleiri landsleiki.

Samherji Dagnýjar í þrjú ár

Sinclair, sem hefur verið fyrirliði Kanada um árabil, leikur sitt tuttugasta ár með landsliðinu en hún er 36 ára gömul, fædd í nágrenni Vancouver, lék þar framan af ferlinum og hefur spilað með bandarískum liðum frá árinu 2008. Þar hefur hún leikið með Portland Thorns frá 2013 og var því samherji Dagnýjar Brynjarsdóttur öll þrjú árin sem hún lék með Portland. Sinclair hefur fagnað bandaríska meistaratitlinum þrisvar, tvisvar með Portland og einu sinni með Western New York Flash.

Markaskor hennar með landsliði Kanada er magnað en þar hefur hún mest gert 23 mörk á einu ári, 2012, og þrisvar leikið 20 landsleiki eða meira á einu ári. Hún er að sjálfsögðu bæði langleikjahæsti og langmarkahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi. Landslið Kanada er í áttunda sæti á heimslista FIFA og Sinclair hefur leikið með því á fimm heimsmeistaramótum.

Mörk í fimm lokakeppnum HM

Hún er önnur tveggja kvenna, ásamt Mörtu frá Brasilíu, sem hafa skorað á fimm lokamótum HM. Þá hefur hún leikið með Kanada á þrennum síðustu Ólympíuleikum og stefnir á þá fjórðu í sumar. Hún varð markahæst á Ólympíuleikunum 2012 með sex mörk og vann þar bronsverðlaun með Kanada. Þann leik endurtók hún á ÓL í Ríó 2016.

Sinclair er í hópi vinsælustu íþróttamanna Kanada og hefur fengið margvísleg verðlaun í heimalandi sínu. Hún hefur verið kjörin íþróttamaður ársins í landinu og var í desember valin besti knattspyrnumaður Kanada á síðasta áratug.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert