Dæmdar bætur vegna fjarveru Ronaldo

Ronaldo spriklaði ekkert á vellinum í Seoul í júlí í …
Ronaldo spriklaði ekkert á vellinum í Seoul í júlí í fyrra. AFP

Dómstóll í Suður-Kóreu hefur dæmt skipuleggjanda til að greiða aðdáendum portúgalska knattspyrnukappans Cristiano Ronaldo bætur eftir að kappinn lék ekki mínútu í vináttuleik í höfuðborginni Seoul á síðasta ári.

Ronaldo sat allan tímann á varamannabekk Juventus þegar ítölsku meistararnir gerðu 3:3-jafntefli við úrvalslið suðurkóresku K-deildarinnar í júlí í fyrra.

Uppselt varð á leikinn á þremur mínútum en alls voru áhorfendur 65 þúsund. Skipuleggjandi leiksins hafði í aðdraganda miðasölu talað mikið um að Ronaldo væri á leiðinni til S-Kóreu en talið er að margir hafi keypt miða í þeim tilgangi að berja portúgalska kappann augum.

Tveir svekktir aðdáendur lögsóttu skipuleggjandann og sökuðu hann um rangfærslur í aðdraganda leiksins. Dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að greiða yrði mönnunum 371 þúsund kóresk won, jafnvirði rúmlega 39 þúsund íslenskra króna, í bætur.

Ekki var óskað bóta frá Ronaldo eða Juventus.

Fjölmargir suðurkóreskir knattspyrnuáhugamenn létu óánægju sína í ljós á samfélagsmiðlum eftir leikinn þar sem frasinn „að hegða sér eins og Ronaldo“ varð til. Þar var talað um einhvern sem sækist eftir athygli án þess að gera það sem hann segist ætla að gera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert