Pelé vill ekki fara út fyrir hússins dyr

Pelé á ferðalagi á síðasta ári, í hjólastól.
Pelé á ferðalagi á síðasta ári, í hjólastól. AFP

Brasilíumaðurinn Pelé, sem margir telja besta knattspyrnumann sögunnar, hefur dregið sig inn í skel og vill helst ekki fara út úr húsi, að því er sonur hans, Edinho, sagði í viðtali við brasilísku sjónvarpsstöðina TV Globo.

Pelé, sem verður áttræður í október á þessu ári, hefur lengi glímt við meiðsli í mjöðm og þarf nú göngugrind til að komast ferða sinna. Þegar hann hefur komið opinberlega fram síðustu mánuði hefur hann yfirleitt verið í hjólastól.

Pelé sýnir ungum áhugamönnum treyju sína frá því hann lék …
Pelé sýnir ungum áhugamönnum treyju sína frá því hann lék með Santos, við opnun á Pelé-safninu árið 2014. AFP

„Hann skammast sín fyrir þetta, hann vill ekki fara út úr húsi og láta sjá sig. Hann vill helst ekki gera neitt sem felur í sér að fara út fyrir hússins dyr. Hann er mjög einrænn um þessar mundir,“ sagði Edinho og kvaðst hafa skammað föður sinn fyrir að hafa ekki farið í þá sjúkraþjálfun sem hann átti að gera eftir aðgerð á mjöðminni.

„Hann er mjög brothættur, hann fór í mjaðmaskiptaaðgerð og fór ekki í eðlilega endurhæfingu. Hann er því með mjög skerta hreyfifærni og það hefur leitt af sér þunglyndi. Hugsið ykkur, hann er kóngurinn, hann var alltaf svo áberandi persóna, og í dag getur hann ekki gengið eðlilega,“ sagði Edinho, sem sjálfur var markvörður og lék 200 deildaleiki í Brasilíu á árunum 1990 til 1999, lengst af með Santos, liði föður síns.

Diego Maradona og Pelé sem af mörgum eru taldir tveir …
Diego Maradona og Pelé sem af mörgum eru taldir tveir bestu knattspyrnumenn sögunnar. AFP

Í ár eru fimmtíu ár síðan Pelé varð heimsmeistari í þriðja sinn með liði Brasilíu, í Mexíkó árið 1970, en margir telja að liðið sem vann þá keppni og sigraði Ítalíu 4:1 í úrslitaleiknum sé besta landslið sögunnar. Hann sló í gegn á HM í Svíþjóð árið 1958, þá 17 ára gamall, og átti stóran þátt í að Brasilía varð heimsmeistari, og vann titilinn í annað sinn með liðinu árið 1962 í Síle.

mbl.is