Síðasti leikurinn gegn uppeldisfélaginu?

Alfons Sampsted í leik með U21 árs landsliði Íslands.
Alfons Sampsted í leik með U21 árs landsliði Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfons Sampsted og samherjar hans hjá sænska liðinu Norrköping mæta Breiðabliki í æfingaleik í fótbolta í Svíþjóð á morgun. Alfons er uppalinn hjá Breiðabliki og fær því tækifæri til að mæta sínu gamla liði. 

Alfons lék með Breiðabliki áður en hann var keyptur til Norrköping árið 2017. Honum gekk illa að festa sig í sessi hjá Norrköping og var hann þrívegis lánaður í sænsku neðri deildirnar; tvisvar til Sylvia og einu sinni til Landskrona. 

Hann var svo lánaður aftur til Breiðabliks seinni hluta síðasta sumars og skoraði eitt mark í átta deildarleikjum. 

Bakvörðurinn, sem lék sína fyrstu landsleiki í síðasta mánuði gegn Kanada og El Salvador, hefur verið orðaður við félög eins og Álasund, sem vann sér inn sæti í efstu deild Noregs á síðustu leiktíð. Síðasti leikur hans fyrir Norrköping gæti því verið gegn uppeldisfélaginu. 

Álasund er sannkallað Íslendingalið því leikmenn eins og Aron Elís Þrándarson, Davíð Kristján Ólafsson, Hólmbert Aron Friðjónsson, Daníel Leó Grétarsson og Adam Örn Arnarson hafa leikið með liðinu síðastliðin ár. Hólmbert, Davíð og Daníel munu væntanlega taka slaginn með liðinu í efstu deild. 

mbl.is