Hefur ekkert með peninga að gera

Erling Braut Håland hefur farið gríðarlega vel af stað með …
Erling Braut Håland hefur farið gríðarlega vel af stað með Dortmund. AFP

Norska táningsstjarnan Erling Braut Håland segir ástæðu þess að hann hafnaði Manchester United í janúar og gekk í raðir Dortmund í staðinn hafi ekkert með peninga að gera. Håland er einn allra besti ungi knattspyrnumaður í heimi í dag. 

United var eitt af tólf félögum sem reyndu að klófesta hinn 19 ára gamla Håland í janúar og samþykkti enska félagið að borga 17 milljónir punda fyrir leikmanninn. Að lokum ákvað hann þó að fara til Þýskalands, þar sem hann hefur farið ótrúlega af stað. 

Håland, sem skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning við Dortmund, hefur skorað sjö mörk á 226 mínútum í þýsku 1. deildinni. Norðmaðurinn vísaði því á bug í samtali við Viasport í Noregi að hann hafi valið Dortmund vegna peninga. 

„Nei. Þeir sem skrifuðu það þyrftu að útskýra það fyrir mér. Fólk sem þekkir mig veit að ég er alls ekki svoleiðis manneskja. Ég hafði í raun ekki mikið um þetta að segja, þar sem umboðsmaðurinn minn fann besta félagið fyrir mig á þessum tímapunkti,“ sagði framherjinn. 

mbl.is