Norðmaðurinn skoraði enn og aftur

Erling Braut Håland í leiknum í kvöld.
Erling Braut Håland í leiknum í kvöld. AFP

Norski framherjinn Erling Braut Håland var enn og aftur á skotskónum hjá Dortmund er liðið vann öruggan 4:0-sigur á Frankfurt í þýsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. 

Håland hefur nú skorað níu mörk í sex leikjum í öllum keppnum síðan hann kom til Dortmund frá Salzburg í Austurríki. Þá er Norðmaðurinn með átta mörk á 384 mínútum í deildinni. 

Lukasz Piszczek kom Dortmund á bragðið í kvöld með marki á 33. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Jadon Sancho bætti við marki á 49. mínútu og fimm mínútum síðar skoraði Håland markið sitt. Raphaël Guerreiro gulltryggði 4:0-sigurinn með marki korteri fyrir leikslok. 

Dortmund er í öðru sæti deildarinnar með 42 stig, einu stigi minna en Bayern München, sem á leik til góða. 

mbl.is