PSG veltir Manchester City af toppnum

París SG er ríkasta knattspyrnufélag heims í dag.
París SG er ríkasta knattspyrnufélag heims í dag. AFP

Frönsku meistararnir París SG hafa velt Manchester City úr efsta sætinu sem ríkasta knattspyrnufélag heims, samkvæmt árlegri skýrslu sem Soccerex Football Finance 100 hefur sent frá sér.

Þar er fjárhagslegur styrkur félaganna reiknaður út frá leikmannahópi, eignum, fjárhagsstöðu, möguleikum eigenda til fjárfestinga og heildarskuldum.

Í skýrslunni kemur fram að PSG hafi minnkað útistandandi skuldir sínar um 70 milljónir evra á árinu 2019 á meðan Manchester City hafi aukið skuldastöðu sína um rúmlega 90 milljónir evra.

Bayern München er í þriðja sæti listans og Tottenham Hotspur í fjórða sæti en Real Madrid kemur þar á eftir. Liverpool er í áttunda sæti.

Manchester United hrapar úr áttunda og niður í sextánda sæti á milli ára, aðallega vegna minnkandi verðgildis leikmannahópsins og aukinna skulda.

Evrópa á 80 prósent þeirra félaga sem eru í þrjátíu efstu sætunum en nær helmingur þeirra félaga er í eign aðila frá Mið-Austurlöndum, Norður-Ameríku og Suðaustur-Asíu.

„Skýrslan gefur jákvæða mynd af heildarfjárhagsstöðu knattspyrnunnar en sýnir líka að bilið á milli stórvelda nútímans í Evrópu og gamalgróinna stórliða hefur breikkað og þau síðarnefndu eiga á hættu að dragast enn lengra aftur úr hinum. Þrátt fyrir yfirburðastöðu Evrópu er fótboltinn sannkölluð heimsíþrótt þar sem fjárfesting í vaxandi markaðssvæðum ýtir frekari stoðum undir vöxt og viðgang hans,“ segir Philip Gegan framkvæmdastjóri Soccerex við fréttastofu Reuters.

Átján af tuttugu liðum ensku úrvalsdeildarinnar eru í hópi 100 ríkustu félaga heims og bandaríska MLS-deildin kemur næst með 17 félög á listanum. Los Angeles FC er efst bandarísku liðanna í átjánda sæti og Los Angeles Galaxy kemur skammt á eftir í 22. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert