Myndi alltaf velja Ísland frekar en Danmörku

Benedikt Tristan Axelsson (númer 17) fyrir leikinn gegn Hvíta-Rússlandi á …
Benedikt Tristan Axelsson (númer 17) fyrir leikinn gegn Hvíta-Rússlandi á síðasta ári. Ljósmynd/KSÍ

Benedikt Tristan Axelsson er efnilegur knattspyrnumaður sem hefur búið í Danmörku síðan hann var þriggja ára. Benedikt, sem er 17 ára, hefur leikið fjóra leiki með U17 ára landsliði Íslands. Hann er í dag leikmaður AaB í Álaborg. 

Benedikt var að leika með Hobro þegar AaB hafði samband í desember 2018. Honum leist vel á og skipti yfir. Leikmaðurinn leikur með U19 ára liði félagsins, en hann hefur einnig spilað leiki með varaliði aðalliðsins og æft með aðalliðinu. 

Leikir Benedikts fyrir U17 ára lið Íslands komu á alþjóðlegu móti í Hvíta-Rússlandi í janúar á síðasta ári. Skoraði hann m.a. sigurmarkið í 1:0-sigri á heimamönnum. Þrátt fyrir það hefur hann ekki fengið kallið í íslenska liðið síðan.

Danska knattspyrnusambandið hefur einnig fylgst með Benedikt, en hann hefur meiri áhuga á að spila fyrir Ísland. „Danska knattspyrnusambandið boðaði mig á æfingar fyrir tveimur árum síðan, en ég komst ekki þar sem ég var staddur á Íslandi hjá föður mínum,“ sagði Benedikt í samtali við mbl.is. 

„Ég var boðaður á æfingar hjá íslenska U17 ára liðinu á síðasta ári og var í kjölfarið valinn til að koma með á æfingamót í Hvíta-Rússlandi. Ég fékk fjóra leiki og það var magnað. Ég er Íslendingur alveg inn að beini, þótt ég hafi búið í Danmörku nánast alla ævi,“ sagði Benedikt, sem er ekki í vafa um hvort hann myndi frekar spila með Íslandi eða Danmörku. 

„Ég myndi alltaf velja íslenska landsliðið frekar en það danska,“ sagði Benedikt. Hann er systursonur Arons Einars Gunnarssonar landsliðsfyrirliða. Ása Maren Gunnarsdóttir, móðir Benedikts, er systir Arons. „Ég lít svakalega upp til hans,“ sagði Benedikt Tristan. 

mbl.is