Lið Önnu setur nýtt áhorfendamet

Anna Björk Kristjánsdóttir (önnur frá hægri í aftari röð) og …
Anna Björk Kristjánsdóttir (önnur frá hægri í aftari röð) og samherjar í PSV eru á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar. Ljósmynd/PSV

Nýtt met mun verða sett í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna 20. mars þegar PSV Eindhoven tekur á móti Ajax í toppslag.

Þegar hafa 11 þúsund miðar verið seldir á leikinn en aðsóknarmetið í deildinni hefur staðið frá árinu 2009 þegar 10 þúsund áhorfendur mættu á leik Willem II og AZ Alkmaar. 

Landsliðskonan Anna Björk Kristjánsdóttir leikur með PSV sem er taplaust og með sjö stiga forskot á Ajax á toppi deildarinnar. Ajax á leik til góða sem verður spilaður í næstu viku, en að öðru leyti eru liðin komin í frí fram að 20. mars þar sem landsleikjahlé er framundan.

Leikurinn fer fram á aðalleikvangi PSV, Phillips Stadium, en vanalega leikur liðið heimaleiki sína á mun minni leikvangi, Sportcomplex De Herdgang, sem rúmar 2.500 manns í sæti. Viðbúið er að áhorfendatalan eigi eftir að hækka verulega, enn er rúmur mánuður í leikinn og völlurinn tekur ríflega 36 þúsund manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert