Markvörðurinn tilkynnti forsetaframboð

Iker Casillas.
Iker Casillas. AFP

Iker Casillas, markvörður Real Madrid og spænska landsliðsins í knattspyrnu til margra ára, tilkynnti í dag að hann myndi bjóða sig fram í kjöri á forseta knattspyrnusambands Spánar.

Casillas, sem er 38 ára gamall, mun þar með formlega hætta sem leikmaður en hann hefur ekkert spilað með Porto síðan hann fékk hjartaáfall á æfingu liðsins í maímánuði á síðasta ári.

Casillas býður sig fram gegn sitjandi forseta, Luis Rubiales, sem hefur verið umdeildur og fengið talsverða gagnrýni í starfi, sérstaklega fyrir hvernig hann hefur höndlað landsliðsþjálfaramál sambandsins.

Ljóst er að Casillas nýtur stuðnings almennings á Spáni en í skoðanakönnun sem Marca framkvæmdi á vef sínum fyrir skömmu og bað fólk um að velja á milli Casillas og Rubiales fékk markvörðurinn 94 prósent atkvæðanna.

Casillas var í röðum Real Madrid frá níu ára aldri og til ársins 2015 þegar hann gekk til liðs við Porto. Hann lék 510 deildarleiki og samtals 725 mótsleiki með Real Madrid og varð fimm sinnum spænskur meistari með liðinu ásamt því að vinna Meistaradeild Evrópu með því í þrjú skipti, 2000, 2002 og 2014. Hann varð síðan portúgalskur meistari með Porto 2018.

Casillas er næstleikjahæsti landsliðsmaður Spánar frá upphafi með 167 landsleiki og varði mark spænska landsliðsins þegar það varð heimsmeistari 2010 og Evrópumeistari 2008 og 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert