Náðu í óvænt stig á Santiago Bernabéu

Ruben Blanco Veiga markvörður Celta heldur boltanum þegar Vinicius Junior, …
Ruben Blanco Veiga markvörður Celta heldur boltanum þegar Vinicius Junior, sóknarmaður Real Madrid, sækir að honum. AFP

Real Madrid tapaði dýrmætum stigum á heimavelli í gærkvöld þegar eitt neðsta lið spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu, Celta Vigo, kom í heimsókn á Santiago Bernabéu og  fór þaðan með 2:2 jafntefli.

Fedor Smolov kom Celta yfir strax á 7. mínútu en Toni Kroos og Sergio Ramos, úr vítaspyrnu, svöruðu fyrir Real Madrid í seinni hálfleik og sigurinn blasti við. Santi Mina var hetja Celta þegar hann jafnaði metin á 86. mínútu, 2:2.

Real Madrid er þá með eins stigs forskot á Barcelona, 53 stig gegn 52, í einvígi liðanna um spænska meistaratitilinn þegar leiknar hafa  verið 24 umferðir af 38. Getafe er í þriðja sæti með 42 stig en liðið tapaði 2:1 fyrir Barcelona á laugardaginn. Atlético Marid og Sevilla eru þar á eftir með 40 stig hvort.

Fyrir Celta er stigið afar dýrmætt í fallbaráttunni en liðið er í 17. sæti af 20 liðum með 21 stig, jafnmörg og Mallorca sem situr í fallsæti og tveimur meira en Leganés og Espanyol.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert