Klopp með föst skot á leikmenn Atlético

Jürgen Klopp var pirraður á hliðarlínunni í kvöld.
Jürgen Klopp var pirraður á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ekki sáttur við framkomu leikmanna Atlético Madríd er liðin mættust í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. Atlético fór með 1:0-sigur af hólmi og virkaði Klopp pirraður á meðan á leik stóð og fékk  hann gult spjald fyrir mótmæli í seinni hálfleik. 

Klopp skaut á leikmenn Atlético í viðtali eftir leik er hann var spurður hvers vegna Sadio Mané var tekinn af velli í hálfleik. „Þeir reyndu eins og þeir gátu að láta reka Mané út af,“ sagði Klopp, en Mané fékk spjald í fyrri hálfleik og var heppinn að fá ekki annað. 

„Ég óttaðist að andstæðingurinn myndi falla ef Mané tók djúpan andardrátt. Ég vildi það ekki, svo ég tók hann út af,“ sagði Klopp, kaldhæðnislega. 

mbl.is