Eins og að fara í byssubardaga án kúlna

José Mourinho á hliðarlínunni í kvöld.
José Mourinho á hliðarlínunni í kvöld. AFP

„Þeir gerðu allt sem þeir gátu,“ sagði José Mourinho um lærisveina sína í Tottenham eftir 0:1-tap fyrir Leipzig í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. 

Illa gekk hjá Tottenham að skapa alvörufæri enda lék liðið án þeirra Heung-min Son og Harry Kane sem eru meiddir. Að sama skapi hefði Leipzig getað skorað fleiri mörk.  

„Strákarnir eru frábærir en þetta er erfitt. Þetta var eins og að fara í byssubardaga án kúlna. Það er hægt að segja að við vorum svolítið heppnir og virkilega góður markvörður varði tvisvar glæsilega fyrir okkur. 

Ég hef ekki áhyggjur af stöðunni. Við getum farið til Þýskalands og unnið. Ég hef ekki áhyggjur af því en ég hef áhyggjur af að þetta sé hópurinn okkar í næstu leikjum. Moura var búinn, Bergwijn var búinn og Lo Celco var algjörlega búinn.“

Næsti leikur Tottenham er gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á laugardag og við það er Mourinho ekki sáttur.

„Við erum í vandræðum þar sem við erum líka í enska bikarnum og í deildinni. Við mætum Chelsea á laugardaginn og núna eru þeir heima að drekka sódavatn. Takk kærlega fyrir að velja það sem hádegisleik,“ sagði Mourinho pirraður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert