Komin í næstbesta lið Noregs

Ingibjörg Sigurðardóttir er gengin í raðir Vålerenga.
Ingibjörg Sigurðardóttir er gengin í raðir Vålerenga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona í knattspyrnu, en gengin í raðir norska félagsins Vålerenga frá Djurgården í Svíþjóð. Ingibjörg hefur leikið vel með Djurgården síðustu tvö tímabil eftir að hún kom til félagsins frá Breiðabliki. 

Samningur hennar við Djurgården rann út og fer hún því til Vålerenga á frjálsri sölu. Ingibjörg hefur leikið 27 leiki fyrir A-landsliðið. 

Jean Balawo, yfirmaður knattspyrnumála hjá Djurgården, var leiður að sjá Ingibjörgu skipta um félag. „Það er ótrúlega leiðinlegt að sjá hana fara. Hún lagði sig alla fram á æfingum og var með hugarfar sigurvegara. Við óskum henni alls hins besta,“ sagði hann á heimasíðu félagsins. 

Ingibjörg, sem er 22 ára gömul, missti aðeins af einum deildarleik á tímabilunum tveimur hjá Djurgården og skoraði alls fjögur mörk. 

Vålerenga, sem er frá Ósló, hafnaði í öðru sæti í norsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, fjórum stigum á eftir Lillestrøm. 

Ingibjörg er þriðja íslenska knattspyrnukonan sem leikur með Vålerenga. Sandra Sif Magnúsdóttir lék með liðinu 2013 og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir árið 2017. Með karlaliði félagsins leikur Matthías Vilhjálmsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert