Metin falla hvert af öðru hjá mögnuðum norskum táningi

Erling Braut Haaland hafði ástæðu til að fagna í leikslok …
Erling Braut Haaland hafði ástæðu til að fagna í leikslok í gærkvöld. AFP

Norski táningurinn Erling Braut Haaland heldur áfram mögnuðu markaskori sínu og eftir mörkin tvö sem tryggðu Borussia Dortmund sigur á París SG, 2:1, í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld er hann búinn að skora hvorki meira né minna en 39 mörk í 29 leikjum fyrir Dortmund og Salzburg á þessu tímabili.

Hann er kominn með 10 mörk í Meistaradeildinni og er aðeins annar leikmaðurinn á eftir Kylian Mbappé, mótherja sínum í gærkvöld, til að ná þeim markafjölda í keppninni fyrir tvítugt. Hann er sá fyrsti undir tvítugu sem nær tíu mörkum á einu og sama keppnistímabilinu.

Haaland var búinn að skora 8 mörk í sex leikjum fyrir Salzburg í riðlakeppninni og er því kominn með 10 mörk í fyrstu sjö leikjum sínum í Meistaradeildinni. Enginn hefur verið svona fljótur að komast í tíu mörk í keppninni.

Erling Braut Haaland sprettur á fætur eftir að hafa skorað …
Erling Braut Haaland sprettur á fætur eftir að hafa skorað fyrra mark sitt hjá Keylor Navas markverði PSG í leiknum í gærkvöld. AFP


Þá er Haaland fyrstur til að skora fyrir tvö lið í Meistaradeild Evrópu á sama tímabilinu en nýbúið er að breyta reglum keppninnar á þann veg að leikmaður geti leikið með öðru liði í útsláttarkeppninni en í riðlakeppninni.

Þeir Haaland og Robert Lewandowski hjá Bayern München eru nú markahæstu menn keppninnar í vetur með 10 mörk hvor.

Eftir að Haaland kom til Dortmund frá Salzburg eftir áramótin hefur hann skorað ellefu mörk í sjö leikjum með þýska liðinu og er markahæstur allra í fimm sterkustu deildum Evrópu (þegar öll mót eru talin með) á árinu 2020.

Enginn annar leikmaður í sögu Dortmund hefur afrekað það að skora í fyrsta deildarleiknum, fyrsta bikarleiknum og fyrsta Evrópuleiknum fyrir félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert