Neymar ósáttur við ákvörðun félagsins

Neymar jafnar metin fyrir PSG í Dortmund í gærkvöld, 1:1.
Neymar jafnar metin fyrir PSG í Dortmund í gærkvöld, 1:1. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar gagnrýnir félag sitt París SG fyrir að hafa ofverndað hann fyrir leik liðsins gegn Borussia Dortmund í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í Þýskalandi í gærkvöld.

Neymar hafði verið hvíldur í fjóra leiki eftir að hafa fengið högg á rifbeinin og hann lýsti yfir óánægju sinni með það eftir 2:1 ósigurinn í Dortmund þar sem hann skoraði mark PSG en náði sér annars ekki á  strik í leiknum.

„Það er erfitt að koma aftur eftir að hafa ekki spilað fjóra leiki. Því miður var það ekki mitt val, heldur félagsins, og læknarnir réðu því. Þeir tóku þessa ákvörðun og ég er ósáttur við hana. Við ræddum þetta mikið, ég vildi spila, mér leið vel, en félagið var hikandi og þegar upp er staðið er það ég sem tapa á þessu. Ég skil alveg þessa hræðslu, tvö undanfarin ár gat ég ekki spilað í sextán liða úrslitunum. Ég virði ákvörðunina en þetta er ekki hægt, svona lagað bitnar bara á leikmanninum. Það var mjög erfitt að spila svona hraðan leik, þetta var 90 mínútna keyrsla, eftir þessa hvíld. Ég hefði örugglega spilað betur ef ég hefði verið í meira leikformi,“ sagði Neymar.

Knattspyrnustjórinn Thomas Tuchel sem var gagnrýndur fyrir að setja ekki Edinson Cavani eða Mauro Icardi inn á seinni hluta leiksins þrátt fyrir að lið hans væri undir, sagði að Neymar hefði ekki verið í takti og vantað spilform.

Talsverður titringur er í herbúðum París SG sem hefur fallið út í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu þrjú ár í röð þrátt fyrir að vera með það efst á sínum forgangslista að vinna keppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert