Arnór meiddist í Wolfsburg - góðir sigrar ensku liðanna

Alexandre Lacazette framherji Arsenal í baráttu við Guilherme miðjumann Guilherme …
Alexandre Lacazette framherji Arsenal í baráttu við Guilherme miðjumann Guilherme í leiknum í kvöld. AFP

Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu, meiddist snemma leiks í kvöld þegar Malmö sótti Wolfsburg heim í 32ja liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta. Ensku liðin Arsenal og Wolves standa mjög vel að vígi eftir sigra í kvöld en fyrri leikir liðanna fóru þá fram.

Arnór Ingvi þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir aðeins 22 mínútna leik í Wolfsburg. Hann fékk aðhlynningu og var síðan skipt af velli. Staðan var 0:0 í hálfleik en Malmö komst yfir á 47. mínútu leiksins með marki Isaac Kiest Thelin úr vítaspyrnu. Wolfsburg jafnaði strax á 49. mínútu, 1:1, með marki Josip Brekalo og náði síðan forystunni á 62. mínútu með marki frá Admir Mehmedi, 2:1. Malmö er þó í ágætri stöðu fyrir seinni leikinn á sínum heimavelli.

Arsenal gerði góða ferð til Grikklands og sigraði þar Olympiacos, 1:0. Alexandre Lacazette skoraði sigurmarkið á 81. mínútu eftir sendingu frá Bukayo Saka og staða liðsins er fín fyrir seinni viðureignina í London.

Diogo Jota fagnar eftir að hafa komið Wolves yfir gegn …
Diogo Jota fagnar eftir að hafa komið Wolves yfir gegn Espanyol í kvöld. AFP


Wolves vann stórsigur, 4:0, á Espanyol frá Spáni, sem sló út Stjörnuna í 2. umferð keppninnar síðasta sumar. Diogo Jota var í miklum ham og skoraði þrennu fyrir Úlfana og Ruben Neves skoraði eitt mark.

Björn Bergmann Sigurðarson var ekki í leikmannahópi APOEL sem steinlá á heimavelli sínum á Kýpur, 0:3, fyrir Basel frá Sviss.

Albert Guðmundsson er enn að ná sér af meiðslum og lék ekki með AZ Alkmaar gerði 1:1 jafntefli á heimavelli á móti LASK Linz frá Austurríki. Teun Koopmeiners jafnaði fyrir AZ á 86. mínútu úr vítaspyrnu.

Rangers vann frækinn sigur á Braga frá Portúgal, 3:2, í Glasgow eftir að hafa verið 0:2 undir í seinni hálfleiknum. Strákarnir hans Stevens Gerrards sneru blaðinu við með þremur mörkum á fimmtán mínútum og rúmenski landsliðsmaðurinn Ianis Hagi, sonur goðsagnarinnar Gheorghe Hagi, skoraði tvö markanna.

Roma sigraði Gent frá Belgíu, 1:0, á heimavelli með marki frá Carles Pérez.

Bayer Leverkusen vann Porto 2:1 í Þýskalandi. Lucas Alario og Kai Havertz komu Leverkusen tveimur mörkum yfir en Luis Diaz skoraði mikilvægt útivallarmark fyrir Porto.

mbl.is