Messi tjáði sig um Neymar

Lionel Messi og Neymar fagna saman með Barcelona árið 2017.
Lionel Messi og Neymar fagna saman með Barcelona árið 2017. AFP

Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi saknar þess að hafa Neymar sem liðsfélaga og vill gjarnan að Barcelona kaupi hann aftur til félagsins í sumar.

Spænski risinn reyndi að endurheimta Neymar síðasta sumar, eftir að hafa selt hann á metfé til PSG í Frakklandi sumarið 2017. Félögin komu sér ekki saman um kaupverð en Brasilíumaðurinn er sagður vilja snúa aftur til Spánar.

Nú hefur Messi sagt að hann sjálfur vilji endurfundi með sóknarmanninum en hann var í viðtali við Mundo Deportive á Spáni. „Neymar er einn besti leikmaður heims og ég myndi elska að fá hann til baka. Hann er lífsglöð manneskja, sem nýtur sem jafnt innan sem utan vallar. Hann lyfti leikmönnunum í kringum sig,“ sagði Messi í viðtalinu.

„Ég held að Neymar vilji virkilega koma til baka. Hann er miður sín yfir því að hafa farið og hann reyndi að koma til Barcelona á síðasta ári. Ég held að afsökunarbeiðni væri gott fyrsta skref,“ bætti Argentínumaðurinn við en margir stuðningsmenn Barcelona voru ósáttir þegar Neymar reri á önnur mið.

mbl.is