Átján ára Íslendingur í hópi í ítölsku A-deildinni

Andri Fannar Baldursson, lengst til hægri í fremri röðinni, númer …
Andri Fannar Baldursson, lengst til hægri í fremri röðinni, númer 16, fyrir landsleik á síðasta ári. Ljósmynd/KSÍ

Andri Fannar Baldursson, 18 ára gamall unglingalandsliðsmaður í knattspyrnu, verður í leikmannahópi Bologna á morgun þegar liðið tekur á móti Udinese í ítölsku A-deildinni.

Andri gekk til liðs við Bologna frá Breiðabliki í febrúar 2019, fyrst sem lánsmaður en samdi síðan við félagið síðasta sumar. Hann spilaði einn úrvalsdeildarleik með Breiðabliki árið 2018, sextán ára gamall, og hefur leikið 34 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Andri er í 21 manns hópi sem Bologna hefur tilkynnt fyrir leikinn á morgun en á Ítalíu er jafnan 21 leikmaður á leikskýrslu. Þetta er í annað sinn sem Andri fer inní hópinn en hann var líka á bekknum í leik gegn Sampdoria 27. október.

Bologna er í 10. sæti af 20 liðum í deildinni eftir 24 umferðir en er aðeins tveimur stigum á eftir Verona sem er í sjötta sæti en það gefur keppnisrétt í Evrópudeild UEFA.

mbl.is