Lewandowski skemmdi fyrir Keflvíkingnum

Robert Lewandowski skorar sigurmarkið.
Robert Lewandowski skorar sigurmarkið. AFP

Bayern München vann nauman 3:2-sigur á Paderborn í þýsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. Robert Lewandowski skoraði sigurmarkið á 88. mínútu. Samúel Kári Friðjónsson spilaði sinn fyrsta leik með Paderborn. 

Serge Gnabry kom Bayern yfir á 25. mínútu, en Dennis Srbeny jafnaði á 44. mínútu og var staðan í leikhléi 1:1. Robert Lewandowski kom Bayern í 2:1 á 70. mínútu en aftur jafnaði Padeborn, nú á 75. mínútu með marki Sven Michel. 

Samúel Kári kom inn á sem varamaður á 81. mínútu en sjö mínútum síðar skoraði Lewandowski sitt annað mark og þriðja mark Bayern og þar við sat. 

Bayern er í toppsæti deildarinnar með 49 stig, fjórum stigum meira en Leipzig sem á leik til góða. Paderborn er í átjánda og neðsta sæti deildarinnar með sextán stig. 

mbl.is