Maður leiksins í tíu marka leik

Elías Már Ómarsson skoraði í skrautlegum leik.
Elías Már Ómarsson skoraði í skrautlegum leik. Ljósmynd/Excelsior

Excelsior vann í dag 6:4-sigur á Den Bosch í skrautlegum leik í hollensku B-deildinni í fótbolta. Elías Már Ómarsson lék allan leikinn fyrir Excelsior, skoraði eitt mark og var valinn maður leiksins. 

Elías reið á vaðið í markaveislunni með fyrsta markinu á 27. mínútu. Excelsior komst í 2:0, en Den Bosch svaraði með þremur mörkum í röð. 

Excelsior jafnaði metin á 65. mínútu úr víti sem Elías náði í, en Den Bosch komst aftur yfir á 71. mínútu. Þá var hins vegar komið að heimamönnum því þeir skoruðu þrjú mörk á síðasta korterinu og tryggðu sér skrautlegan sigur í leiðinni. 

Excelsior er í áttunda sæti hollensku B-deildarinnar með 41 stig eftir 26 leiki. Elías hefur skorað níu mörk í deildinni á leiktíðinni og þar af fjögur í síðustu þremur leikjum. 

mbl.is