Enn eitt markið frá Erlingi norska

Erling Braut Haaland fagnar marki sínu í Bremen í dag.
Erling Braut Haaland fagnar marki sínu í Bremen í dag. AFP

Norski táningurinn Erling Braut Haaland hélt uppteknum hætti í dag og bætti við marki fyrir Borussia Dortmund í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu.

Haaland skoraði síðara mark liðsins í 2:0 útisigri gegn Werder Bremen. Þar með hefur hann skorað níu mörk í fyrstu sex leikjum sínum í deildinni og alls tólf mörk í fyrstu níu leikjunum eftir að Dortmund keypti hann af Salzburg um áramótin. Hann er orðinn ellefti markahæsti leikmaður deildarinnar eftir sex leiki en hinir á markalistanum eru með allt að 23 leikjum.

Dortmund er með 45 stig í þriðja sæti á eftir Bayern München sem er með 49 stig og RB Leipzig sem er með 48 stig. Leipzig burstaði Schalke 5:0 á útivelli en Bayern vann nauman sigur á Samúel Kára Friðjónssyni og félögum í Paderborn í gærkvöld, 3:2.

Alfreð Finnbogason og samherjar í Augsburg leika á morgun en þeir sækja heim lið Bayer Leverkusen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert