Messi óstöðvandi er Barcelona fór á toppinn

Lionel Messi var óstöðvandi í dag.
Lionel Messi var óstöðvandi í dag. AFP

Lionel Messi átti sinn besta leik í nokkurn tíma er Barcelona vann sannfærandi 5:0-sigur á Eibar á heimavelli í spænsku 1. deildinni í fótbolta í dag. 

Messi skoraði fjögur fyrstu mörk Barcelona, áður en Arthur bætti við fimmta markinu í lokin. Fyrsta markið kom á 14. mínútu og var það einkar fallegt. Messi vippaði þá yfir Marko Dmitrovic í marki Eibar eftir fallegan einleik. 

Argentínumaðurinn bætti við öðru markinu á 37. mínútu með hnitmiðuðu skoti og hann var svo fyrstur að átta sig í teignum á 40. mínútu og fullkomnaði þrennuna. Staðan í hálfleik var því 3:0. 

Messi skoraði fjórða markið skömmu fyrir leikslok þegar hann fylgdi eftir skoti Martin Braithwaite, sem var að spila sinn fyrsta leik með liðinu. Markið hjá Arthur tveimur mínútum síðar var svipað, þar sem hann fylgdi einnig eftir skoti danska framherjans. 

Barcelona er í toppsætinu með 55 stig, tveimur stigum á undan Real Madríd, sem á leik til góða gegn Levante á útivelli klukkan 20. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert