Real mistókst að endurheimta toppsætið

Real Madríd fór illa með góð færi.
Real Madríd fór illa með góð færi. AFP

Real Madríd mistókst að endurheimta toppsæti spænsku 1. deildarinnar í fótbolta þar sem liðið tapaði á útivelli fyrir Levante í kvöld, 0:1. 

José Morales skoraði sigurmarkið á 79. mínútu, en fram að því hafði Real verið töluvert sterkari aðilinn. Real var 63% með boltann og fékk fjögur mjög góð færi á meðan Levante nýtti eina góða færið sitt í leiknum.

Real er í öðru sæti deildarinnar með 53 stig, tveimur stigum frá Barcelona, en Real gerði jafntefli við Celta Vigo í síðustu umferð og hefur því aðeins fengið eitt stig í síðustu tveimur leikjum. 

Levante er í tíunda sæti með 32 stig. 

mbl.is