Leikurinn gegn City í óvissu

Eden Hazard fór meiddur af velli í gær.
Eden Hazard fór meiddur af velli í gær. AFP

Eden Hazard, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, var í byrjunarliði Real Madrid þegar liðið tapaði 1:0 á útivelli gegn Levante í spænsku 1. deildinni í gær. Hazard þurfti hins vegar að yfirgefa völlinn á 67. mínútu vegna meiðsla en Belginn gekk til liðs við Real Madrid síðasta sumar.

Hazard hefur verið afar óheppinn með meiðsli síðan hann fór til Spánar og hefur sóknarmaðurinn aðeins byrjað níu leiki í spænsku 1. deildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað eitt mark og lagt upp eitt. Hazard er orðinn 29 ára gamall en Real Madrid borgaði Chelsea 100 milljónir evra fyrir leikmanninn.

Spænskir fjölmiðlar fjalla um það í dag að leikmaðurinn gæti nú misst af leik Real Madrid og Manchester City í Meistaradeildinni en fyrri leikur liðanna fer fram á Santiago Bernabéu í Madrid á miðvikudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert