Áfall fyrir Real Madrid

Eden Hazard hefur verið afar óheppinn með meiðsli á þessari …
Eden Hazard hefur verið afar óheppinn með meiðsli á þessari leiktíð. AFP

Eden Hazard, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, er fótbrotinn en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag. Hazard mun því missa af einvíginu gegn Manchester City í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en fyrri leikurinn fer fram á Santiago Bernabéu á miðvikudaginn kemur.

Hazard fór meiddur af velli í 1:0-tapi Real Madrid gegn Levante á útivelli í spænsku 1. deildinni um helgina. Hazard byrjaði leikinn en haltraði af velli á 67. mínútu. Hazard hefur verið afar óheppinn með meiðsli á þessari leiktíð en hann gekk til liðs við Real Madrid frá Chelsea fyrir 100 milljónir evra síðasta sumar.

Belginn hefur aðeins byrjað níu deildarleiki á tímabilinu þar sem hann hefur skorað eitt mark og lagt upp eitt mark en honum hefur engan veginn tekist að sýna sitt rétta andlit á Spáni. Ekki er enn þá ljóst hversu lengi leikmaðurinn verður frá vegna meiðslanna en tímabilið gæti verið búið hjá belgíska landsliðsmanninum.

mbl.is