Í ítarlega skoðun vegna kórónuveirunnar

Leikmenn Barcelona þurfa að gangast undir ítarlega skoðun við komuna …
Leikmenn Barcelona þurfa að gangast undir ítarlega skoðun við komuna til Ítalíu í dag. AFP

Leikmenn og starfsmenn spænska knattspyrnufélagsins Barcelona munu gangast undir ítarlega skoðun vegna kórónuveirunnar þegar þeir koma til Ítalíu í dag en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Barcelona mætir Napoli í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Napólí á morgun.

Mikill viðbúnaður er á Ítalíu vegna veirunnar en rúmlega fjörutíu knattspyrnuleikjum var frestað í landinu um helgina vegna veirunnar. Þá var fjórum leikjum í ítölsku A-deildinni frestað vegna veirunnar en ESPN greinir frá því að allir leikmenn spænsku meistaranna verði skoðaðir ítarlega við komuna til landsins og sendir beint á spítala ef eitthvað er óeðlilegt.

Samkvæmt nýjustu tölum frá Ítalíu hafa 152 manns greinst með kórónuveiruna á Norður-Ítalíu og þá eru þrír látnir vegna hennar. Íþróttamálaráðherra Ítala, Vincenzo Spadafora hafði sent UEFA bréf og beðið um að leik Napoli og Barcelona yrði frestað vegna veirunnar en UEFA var ekki tilbúið að fresta leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert