Íslendingaliðið fær óvæntan liðsstyrk

Jordon Mutch er kominn til Noregs.
Jordon Mutch er kominn til Noregs. Ljósmynd/Álasund FK

Íslendingaliðið Álasund fékk áhugaverðan liðsstyrk í dag er enski miðjumaðurinn Jordon Mutch skrifaði undir samning sem gildir út komandi leiktíð í norska fótboltanum. 

Mutch, sem er 28 ára, spilaði á sínum tíma 69 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Birmingham, Cardiff, QPR og Crystal Palace. Hann lék síðast með Gyeongnam í Suður-Kóreu.

Þar á undan lék hann með Vancouver Whitecaps í bandarísku atvinnumannadeildinni og Reading í ensku B-deildinni. 

Álasund tryggði sér sæti í efstu deild Noregs með því að vinna 1. deildina með miklum yfirburðum á síðustu leiktíð. Hólmbert Aron Friðjónsson, Daníel Leó Grétarsson og Davíð Kristján Ólafsson leika með liðinu. 

mbl.is