Mættu ekki í toppslaginn

Eftirlýstir. Leikmenn egypska liðsins Zamalek sem létu ekki sjá sig …
Eftirlýstir. Leikmenn egypska liðsins Zamalek sem létu ekki sjá sig í gær. AFP

Knattspyrnufélagið Zamalek, sem leikur í egypsku efstu deildinni, á yfir höfði sér refsingu frá knattspyrnusambandinu þar í landi eftir að liðið mætti ekki til leiks í toppslag gegn Al Ahly í gær.

Félögin eru bæði staðsett í Kairó, höfuðborg Egyptalands, og er mikill rígur á milli þeirra. Þau væru bæði sektuð eftir að leikmenn liðanna slógust í síðustu viku þar sem liðin kepptu í meistarakeppninni. Zamalek vann þann leik í vítaspyrnukeppni en forseti félagsins, Mortada Mansour, var meðal þeirra sem var sektaður fyrir illindin eftir leik. Hann hótaði því í kjölfarið að liðið myndi ekki mæta til leiks á leikvanginn í Kairó í gær og virðist hafa staðið við það.

Forráðamenn Zamalek segja liðsrútuna hafa tafist í umferð og því ekki komist á völlinn en félögin deila sama heimavelli. Egypska knattspyrnusambandið hefur hins vegar hafnað þessari skýringu og er ljóst að málið mun draga dilk á eftir sér. Al Ahly er á toppi deildarinnar og sigursælasta knattspyrnufélag Afríku en nágrannarnir í Zamalek sitja í þriðja sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert