New York City örugglega áfram

Guðmundur Þórarinsson skrifaði undir þriggja ára samning við bandaríska félagið.
Guðmundur Þórarinsson skrifaði undir þriggja ára samning við bandaríska félagið. Ljósmynd/@NYCFC

Guðmundur Þórarinsson var ekki í leikmannahópi New York City sem vann 1:0-heimasigur gegn San Carlos frá Kostaríka í síðari leik liðanna í Meistaradeild Norður-Ameríku í knattspyrnu á Red Bull Arena í New Jersey í nótt.

Það var Alexander Callens sem skoraði sigurmark leiksins undir lok fyrri hálfleiks en fyrri leik liðanna á Kostaríka lauk með 5:3-sigri New York City sem vinnur því viðureignina samanlagt 6:3. 

Guðmundur gekk til liðs við New York City í lok janúar en hann á enn þá eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið. Bandaríska MLS-deildin hefst 1. mars þegar New York City heimsækir Columbus Crew.

mbl.is