Skal koma þessu inn í hausinn á þeim

Maurizio Sarri var ósáttur með sína menn eftir 1:0-tap gegn …
Maurizio Sarri var ósáttur með sína menn eftir 1:0-tap gegn Lyon í Frakklandi í gær. AFP

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Juventus, var ekki ánægður með sína menn eftir 1:0-tap gegn Lyon í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Groupama-vellinum í Lyon í Frakklandi í gær. Jafnræði var með liðunum í leiknum en það var Lucas Tousart sem skoraði sigurmark leiksins á 31. mínútu.

„Það er erfitt að útskýra það nákvæmlega hvað fór úrskeiðis hjá okkur,“ sagði Sarri í samtali við fjölmiðla eftir leik. „Við vorum hægir og hreyfðum boltann allt of hægt á milli manna í fyrri hálfleik. Þar sem við vorum að hreyfa boltann hægt á milli manna var mjög auðvelt fyrir mótherjana að pressa okkur og það var nákvæmlega það sem gerðist.“

„Það vantaði alla ákefð í okkur sóknarlega og líka varnarlega á köflum. Við vorum hins vegar óheppnir að fá á okkur mark þar sem að Mtthijs De Ligt var utan vallar vegna meiðsla þegar þeir skora. Seinni hálfleikurinn var mun betri en það dugar stundum ekki, sérstaklega þegar þú ert að spila í Meistaradeildinni.“

„Ég veit ekki af hverju en ég næ ekki að sannfæra leikmennina um það hversu miklu máli það skiptir að hreyfa boltann hratt á milli manna. Það er algjört lykilatriði fyrir okkur að hreyfa hann hratt og ég skal koma þessu inn í hausinn á þeim einn daginn,“ bætti Sarri við en síðari leikur liðanna fer fram 17. mars á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert