Spilling á Spáni

Martin Braithwaite gekk til liðs við Barcelona frá Leganes fyrir …
Martin Braithwaite gekk til liðs við Barcelona frá Leganes fyrir viku. AFP

Martin Braithwaite gekk á dögunum til liðs við spænska knattspyrnufélagið Barcelona frá Leganés en Börsungar borguðu klásúlu í samningi danska sóknarmannsins sem hljóðaði upp á 18 milljónir evra.

Barcelona fékk undanþágu frá spænska knattspyrnusambandinu til þess að kaupa Braithwaite vegna meiðsla lykilmanna eins og Ousmane Dembélé og Luis Suárez. Samkvæmt reglum spænsku 1. deildarinnar mega félög kaupa leikmann utan félagaskiptaglugga ef leikmaður félagsins verður fyrir meiðslum sem kosta hann meira en hálfs árs fjarveru.

Leganés er í harðri fallbaráttu í spænsku 1. deildinni en liðið er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með 19 stig þegar þrettán umferðir eru eftir af tímabilinu, fjórum stigum frá öruggu sæti. Braithwaite hafði skorað sex mörk og lagt upp önnur tvö í 21 byrjunarliðsleik í deildinni á tímabilinu og því áfall fyrir Leganés að missa hann á þessum tímapunkti.

Leganés sótti um undanþágu hjá spænska knattspyrnusambandinu til þess að kaupa leikmann í stað Braithwaite en þeirri undanþágu var hafnað í dag við lítinn fögnuð Leganés-manna. „Reglurnar eru ósanngjarnar, þær ógna heilindum deildarinnar og menn hljóta að spyrja sig hvort það sé spilling á Spáni,“ segir í tilkynningu sem Leganés sendi frá sér í dag.

„Þetta ógnar líka tilvist minni klúbba og sýnir svart á hvítu að það sitja ekki allir við sama borð þegar kemur að deildarkeppninni á Spáni. Þetta afsvar sem félagið fær um að styrkja hópinn eftir brotthvarf Martin Braithwaite er fyrst og fremst gríðarlegt áfall og gæti skaðað klúbbinn enn þá frekar til frambúðar,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert