„Það var smá sjokk“

Lífið gengur sinn vanagang hjá Willum Þór í Hvíta-Rússlandi.
Lífið gengur sinn vanagang hjá Willum Þór í Hvíta-Rússlandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Willum Þór Willumsson gekk í raðir BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi frá Breiðabliki á síðasta ári. Willum lék 33 keppnisleiki með Breiðabliki og skoraði sex mörk í 28 leikjum í úrvalsdeildinni. Honum líkar vel lífið í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands.

Deildarkeppnin í Hvíta-Rússlandi er sú eina í álfunni sem gengur sinn vanagang, þrátt fyrir kórónuveiruna. Voru áhorfendur á leiknum hjá Willum í gær og leikmenn heilsuðust fyrir og eftir leik. Ekki er gert ráð fyrir því að deildinni verði frestað á næstunni. Rúmlega 50 staðfest smit veirunnar hafa verið staðfest í landinu og hefur enginn látið lífið af völdum hennar. 

„Höfuðborgin Minsk er mjög þægileg og góð borg. Ef maður fer aðeins út fyrir Minsk er þetta svolítið gamaldags og eins og maður sé að fara aftur í tímann,“ sagði Willum sem er rólegur í frítíma sínum. „Ég fer í Playstation, horfi á Netflix eða út að borða. Það eru mikil rólegheit,“ sagði hinn 21 árs gamli Willum í samtali við mbl.is. 

Hann er heilt yfir nokkuð sáttur við eigin spilamennsku til þessa hjá BATE, en hann hefur leikið 20 leiki í hvítrússnesku úrvalsdeildinni.

„Þetta byrjaði mjög vel þegar ég kom en svo datt þetta aðeins niður og ég datt úr liðinu. Um mitt síðasta tímabil var ég byrjaður aftur að spila en þá meiðist ég og ég var smá tíma að ná mér af þeim meiðslum og svo í kjölfarið veikist ég.

Þegar ég var að spila á síðustu leiktíð fannst mér ganga vel og á þessu undirbúningstímabili og í fyrstu leikjunum hefur mér gengið mjög vel,“ sagði Willum sem lék sinn fyrsta og eina A-landsleik til þessa gegn Eistlandi í vináttuleik á síðasta ári. Þá hefur hann leikið 13 leiki með U21-landsliðinu og skorað í þeim tvö mörk.

BATE er langsigursælasta félag Hvíta-Rússlands og hafði unnið titilinn þar í landi á hverju ári frá 2006, þangað til á síðustu leikið er Dynamo Brest stóð uppi sem sigurvegari. Brest hafnaði með 75 stig og BATE 70 stig.

Krafa um titil á hverju ári

„Það er gerð krafa um titil hér á hverju ári. Við náðum í 70 stig í fyrra og það hefur oft dugað. Brest, sem vann, spilaði hins vegar mjög vel og því nægði það ekki í þetta skiptið. Á þessu tímabili er gerð krafa um titil, sérstaklega þar sem við unnum ekki á síðustu leiktíð,“ sagði Willum, en leiktíðin byrjaði ekki vel hjá BATE, þar sem liðið tapaði á útivelli fyrir BGU Minsk, 1:3, í fyrstu umferðinni í gær.

„Það var smá sjokk en allir leikir í þessari deild eru erfiðir og sérstaklega á útivelli. Liðin bakka mikið á móti okkur. Þetta var erfiður leikur en við rífum okkur upp úr þessu,“ sagði Willum Þór, sem vildi ekki tjá sig um neitt tengt kórónuveirunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert