Öllum sama um kórónuveiruna

Aleksandr Hleb lék með Arsenal á árunum 2005 til ársins …
Aleksandr Hleb lék með Arsenal á árunum 2005 til ársins 2008. AFP

Öllum knattspyrnudeildum í Evrópu hefur verið frestað nema í Hvíta-Rússlandi þar sem áfram er spilaður fótbolti. Tímabilið þar í landi hófst á fimmtudaginn þar sem lið Willums Þórs Willumssonar, BATE, tapaði nokkuð óvænt á útivelli gegn Energetyk-BGU. Willum kom inn á sem varamaður í leiknum en alls voru 730 áhorfendur á leiknum.

„Það er öllum saman um kórónuveiruna í Hvíta-Rússlandi,“ sagði Aleksandr Hleb, fyrrverandi leikmaður Arsenal og Barcelona, í samtali við enska fjölmiðla en Hleb, sem er frá Hvíta-Rússlandi, lagði skóna á hilluna eftir síðustu leiktíð. „Öll heimsbyggðin ætti nú að kveikja á sjónvarpinu sínu og fylgjast með fótboltanum í Hvíta-Rússlandi.

Þegar bandaríska íshokkídeildin, NHL, aflýsti tímabilinu sínu voru margir leikmenn sem fóru til Rússlands til að spila. Kannski munu Lionel Messi og Cristiano Ronaldo snúa aftur í deildina til okkar ef það sér ekki fyrir endann á þessum faraldri einn daginn. Hér var ákveðið að spila áfram og það er ákvörðun sem fólkið í landinu er ánægt með.

Forsetinn okkar trúir því að traktorar geti læknað fólk af kórónuveirunni en UEFA gerði rétt í að fresta Meistaradeildinni og Evrópudeildinni. Ég hef reynt að halda mig heima ásamt fjölskyldu minni en það eru ekki margir sem taka veiruna alvarlega hér og fólk heldur áfram að lifa sínu daglega lífi úti á götu,“ bætti Hleb við.

mbl.is