Breytingar á félagaskiptaglugganum í skoðun

Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. AFP

FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, er nú með það í skoðun að breyta dagsetningum í kringum félagaskiptagluggann vegna kórónuveirunnar. Félagaskiptaglugginn verður opnaður 10. júní næstkomandi á Bretlandi en það má gera ráð fyrir því að enska úrvalsdeildin verði enn þá í gangi á þessum tíma.

Öllum fótbolta í Evrópu nema í Hvíta-Rússlandi hefur verið frestað vegna kórónuveirufaraldsins. Stærstu deildir Evrópu vonast til þess að klára sínar deildarkeppnir fyrir 30. júní en þá renna margir leikmenn út á samningi. FIFA hefur stofnað vinnuhóp til þess að finna hentugar dagsetningar en gera má ráð fyrir því að opnun félagaskiptagluggans verði seinkað.

„Það hefur verið ráðist í ákveðna vinnu vegna félagaskiptalguggans hjá FIFA,“ sagði talsmaður samtakanna í samtali við Sky Sports í vikunni. „Engar ákvarðanir verða hins vegar teknar fyrr en rætt hefur verið við forráðamenn deildanna, félögin sjálf og auðvitað leikmennina,“ bætti talsmaður FIFA við í samtali við Sky Sports.

mbl.is