Lagerbäck skipuleggur Serbaleikinn á óhefðbundinn hátt

Lars Lagerbäck er landsliðsþjálfari Norðmanna.
Lars Lagerbäck er landsliðsþjálfari Norðmanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, átti að stýra liði Noregs gegn Serbíu á Ullevaal í Ósló frammi fyrir 27 þúsund áhorfendum í kvöld, á sama tíma og Ísland átti að mæta Rúmeníu á Laugardalsvellinum.

Nú hefur umspilinu fyrir EM verið frestað fram í fyrstu viku júnímánaðar en norska liðið er í nákvæmlega sömu stöðu og það íslenska. Sigurliðið í leik Noregs og Serbíu fær heimaleik gegn sigurvegaranum í einvígi Skotlands og Ísraels. Leikdagar eru þeir sömu, 4. og 9. júní.

VG skýrir frá því að Lagerbäck hafi kallað samstarfsmenn sína hjá norska knattspyrnusambandinu saman á vídeófund til að skipuleggja undirbúninginn fyrir leikinn gegn Serbum. Aðstoðarþjálfarann Per Joar Hansen, starfsmanninn Are Hokstad og fjölmiðlafulltrúann Svein Graff.

„Við fórum í gegnum öll þau verkefni sem starfsfólk landsliðsins á að inna af hendi. Nú verður það bæði mikilvægara og um leið erfiðara við þessar kringumstæður að fylgja hlutunum eftir og gera leikmennina klára í slaginn," sagði Lagerbäck við VG.

„Í bili verður öll vinnan unnin í gegnum tölvur og síma. Sjúkrateymið okkar á að fylgjast með leikmönnunum eins vel og mögulegt er. Fjórum vikum áður en liðið kemur saman eiga þau að skila inn skýrslum yfir allt sem leikmennirnir gera. Í einhverjum tilvikum getur verið nauðsynlegt að fá einhverja leikmenn fyrr en aðra til undirbúnings.

Fjölmiðlafulltrúinn sér um samskipti leikmanna, starfsliðs og fjölmiðla, sem getur verið einstaklega mikilvægt við þessar kringumstæður. Hvað fótboltann varðar og hvernig við leggjum Serbaleikinn upp undirbúum við leikmennina eins  vel og við getum með ýmsum ráðum," sagði Lagerbäck, sem um leið horfir til þess að andstæðingar Noregs í Þjóðadeildinni í haust verði skoðaðir, en það eru Austurríki, Rúmenía og Norður-Írland.

„En mest horfum við til þess núna að æfingar og leikir hjá félagsliðunum komist í gang eins fljótt og það verður mögulegt," sagði Lars Lagerbäck.

mbl.is