Myndarlegt fjárframlag stóru félaganna

Bayern München og Borussia Dortmund eru harðir keppinautar en sýna …
Bayern München og Borussia Dortmund eru harðir keppinautar en sýna nú samstöðu. AFP

Þýsku knattspyrnufélögin fjögur sem leika í Meistaradeild Evrópu ætla að koma öðrum félögum í tveimur efstu deildum Þýskalands til aðstoðar með myndarlegum fjárstyrk.

Samtals ætla Bayern München, Borussia Dortmund, RB Leipzig og Bayer Leverkusen að láta 20 milljónir evra renna til þeirra 32 félaga sem um ræðir en fjárhagslegt tap vegna útbreiðslu kórónuveirunnar heggur nærri mörgum þeirra sem eru að komast í vandræði með að greiða laun og halda rekstrinum gangandi án fótboltans.

„Við viljum ásamt hinum þremur Meistaradeildarliðunum senda skilaboð um samstöðu til allra félaga í 1. og 2. deild með þessu frumkvæði. Á þessum erfiðum tímum er mikilvægt að þeir sterkari styðji þá veikari. Með þessu viljum við líka sýna að í fótboltanum standa allir þétt saman," sagði Karl-Heinz Rummenigge í tilkynningu frá Bayern München þar sem hann starfar sem framkvæmdastjóri.

„Við höfum alltaf sagt að við myndum sýna samstöðu ef önnur félög lentu í óyfirstíganlegum erfiðleikum sem þau geta sjálf ekkert gert við. Borussia hefur nú þegar mikil áhrif í þjóðfélaginu með ýmiss konar verkum og við erum að sjálfsögðu tilbúnir til að hjálpa öðrum knattspyrnufélögum þegar málið snýst um að minnka skaðann af fjárhagslegum vandræðum vegna heimsfaraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert