Tjáir sig lítillega þremur árum eftir áfallið

Hugað að Abdelhak Nouri á vellinum þegar hann hneig niður …
Hugað að Abdelhak Nouri á vellinum þegar hann hneig niður í júlí 2017. AFP

Í júlí árið 2017, fyrir nærri því þremur árum, hneig hollenski knattspyrnumaðurinn Abdelhak Nouri, leikmaður Ajax, niður í æfingaleik gegn Werder Bremen og var haldið sofandi lengi vel eftir atvikið.

Nouri varð fyrir varanlegum heilaskaða af völdum hjartaáfalls en nú hefur Abderrahim bróðir hans upplýst í hollenska sjónvarpsþættinum „Heimurinn snýst" að Nouri sé farinn að geta tjáð sig lítillega við fjölskyldu sína.

Nouri getur hvorki gengið né talað en fjölskyldan kom upp sérstöku húsi til þess að annast hann.

„Á bestu stundunum nær hann að sýna svipbrigði með því að hreyfa augabrúnirnar en ekki lengi í einu. Appie veit hvar hann er og það er gott fyrir hann að vera í kunnuglegu umhverfi með fjölskyldunni. Við tölum við hann og horfum á fótbolta með honum - hann er ánægður með það. Stundum er þetta tilfinningaþrungið en við brosum oft og það er jákvætt," segir bróðir hans.

„Við trúum svo sannarlega á kraftaverk, þetta er erfitt en við höldum áfram að gera okkar besta. Okkar markmið er að Appie nái betri heilsu og við hugsum um hann eins vel og við getum," segir Mohammed Nouri faðir hans.

Frenkie de Jong, leikmaður Barcelona, er fyrrverandi samherji Nouri hjá Ajax en þeir eru jafnaldrar, 22 ára gamlir, og hann segir að Nouri hafi sýnt viðbrögð þegar hann hafi komið til hans og sagt honum að hann væri á leið til Barcelona.

„Þegar ég sat hjá honum kom móðir hans inn og spurði: Appie, hvert á Frenkie að fara - til Barcelona? Þá brást hann strax við með því að lyfta augabrúnunum. Það var mjög sérstakt augnablik," sagði de Jong í þættinum.

Nouri, sem verður 23 ára gamall í byrjun apríl, fæddist í Amsterdam og var í röðum Ajax frá átta ára aldri en hann lék 36 leiki með yngri landsliðum Hollands. Hann hafði leikið níu úrvalsdeildarleiki fyrir Ajax þegar ógæfan dundi yfir, var valinn besti leikmaður varaliðs félagsins tímabilið 2016-17 og hafði verið endanlega færður yfir í aðalliðshópinn sumarið örlagaríka 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert