Dreymir um Real Madrid

Rayan Cherki er strax byrjaður að láta til sín taka …
Rayan Cherki er strax byrjaður að láta til sín taka þrátt fyrir að vera einungis sextán ára gamall. AFP

Rayan Cherki, sóknarmaður Lyon í Frakklandi, er á meðal efnilegustu táninga í heimsfótboltanum í dag. Þrátt fyrir að vera einungis 16 ára gamall hefur hann komið við sögu í sex leikjum í frönsku 1. deildinni á tímabilinu, þar af hefur hann byrjað einn þeirra, og þá hefur hann einnig komið við sögu með liðinu í Meistaradeildinni.

„Ég elska Lyon sem hefur alla tíð fyrir mitt félag,“ sagði Cherki í samtali við franska fjölmiðla. „Mig dreymir hins vegar um að spila fyrir Real Madrid einn daginn enda er það draumafélagið mitt ásamt Lyon,“ bætti Cherki við en hann er yngsti markaskorari í sögu franska úrvalsdeildarliðsins.

Cherki verður samningslaus sumarið 2022 en fari svo að Cherki gangi til liðs við Real Madrid einn daginn, frá Lyon, myndi hann feta í fórspor Karim Benzema sem fór frá Lyon til Real Madrid árið 2009. Þá er stjóri Real Madrid, Zinedine Zidane, einnig franskur en hann er sagður hafa augastað á Cherki sem á að baki tvo landsleiki fyrir U16 ára lið Frakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert