Stærsta áskorun knattspyrnusögunnar

Andrea Agnelli, stjórnarformaður Juventus.
Andrea Agnelli, stjórnarformaður Juventus. AFP

Andrea Agnelli, stjórnarformaður Ítalíumeistara Juventus í knattspyrnu, segir að knattspyrnuheimurinn standi nú frammi fyrir sinni stærstu áskorun í sögunni vegna kórónuveirufaraldsins sem nú herjar á heimsbyggðina. Öllum stærstu deildarkeppnum innan Evrópu hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna veirunnar.

Til stóð að ítalska A-deildin myndi hefjast þann 3. maí næstkomandi en í vikunni var hætt snögglega við þau plön enda Ítalíu það land sem hefur orðið verst úti vegna kórónuveirunnar. Alls eru rúmlega 86.500 manns smituð af veirunni þar í landi og þá hafa rúmlega 9.000 manns látist af völdum hennar.

„Við sem stýrum okkar félögum erum ábyrgir fyrir heilsu þeirra sem þar starfa.“ sagði Agnelli í samtali við ítalska fjölmiðla. „Fótboltinn er nú í algjörri biðstöðu sem þýðir líka að engar tekjur eru að skila sér inn til félaganna. Ástandið sem nú ríkir vegna kórónuveirunnar er stærsta áskorun knattspyrnusögunnar,“ bætti stjórnarformaðurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert