Ungur leikmaður á Spáni látinn

Leikmenn Atlético Madríd stilla sér upp fyrir leik gegn Liverpool …
Leikmenn Atlético Madríd stilla sér upp fyrir leik gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu fyrr í mánuðinum. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Atlético Madríd minnist nú Christian Minchola, sem spilaði fyrir unglingalið félagsins, eftir að unglingurinn lést skyndilega.

Minchola fæddist árið 2000 og spilaði með unglingaliði Atlético en hann hafði skorað yfir 50 mörk fyrir liðið og þótti efnilegur. Fyrir utan Metropolitano-leikvang félagsins er nú flaggað í hálfa stöng og þá hafa margir aðalliðsleikmenn minnst Minchola á samfélagsmiðlum.

„Atlético Madríd syrgir fráfall U14 leikmanns okkar, Christian Minchola. Við syrgjum með fjölskyldu, liðsfélögum og vinum hans. Megi hann hvíla í friði,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu sem birt var á Twitter í dag.

„Reiði og sorg yfir að þurfa kveðja Christian. Lífið er ósanngjarnt. Ég er stoltur af því að þú klæddist treyjunni,“ skrifaði miðjumaðurinn Koke á Twitter. Dánarorsök liggur ekki fyrir.

mbl.is