Gamla hetjan tilbúin að taka við Barcelona

Xavi
Xavi AFP

Xavi, einn besti miðjumaður í sögu spænska landsliðsins og stórliðsins Barcelona, segist vera tilbúinn að taka við þjálfun liðsins en hann fundaði með forráðamönnum félagsins fyrr á árinu.

Quique Setién tók við liðinu í janúar eftir að Ernesto Valverde var rekinn en Xavi, sem þjálf­ar Al Rayy­an í Kat­ar, taldi það ekki réttan tíma til að snúa aftur heim. Hann virðist nú hafa breytt um afstöðu.

„Ég vil snúa aftir til Barcelona og er mjög spenntur fyrir því,“ sagði Xavi í viðtali við La Vanguardia. „Nú þegar ég er búinn að koma mér í þjálfun tel ég mig geta fært leikmönnum liðsins eitthvað.“ Hann hélt svo áfram og nefndi nokkra leikmenn sem hann vildi fá til liðsins, eins og Neymar sem hann vill sjá snúa aftur frá PSG sem og Englendinginn Jadon Sancho frá Dortmund.

Xavi spilaði yfir 700 leiki fyr­ir Barcelona og lék 133 leiki með spænska landsliðinu. Hann varð spænskur meistari átta sinnum og vann Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert