Hvítrúss­neska deildin vinsæl sem aldrei fyrr

Lífið gengur sinn vanagang hjá Willum Þór í Hvíta-Rússlandi.
Lífið gengur sinn vanagang hjá Willum Þór í Hvíta-Rússlandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvítrúss­neska úr­vals­deild­in í knattspyrnu er eina deild­in í Evr­ópu þar sem ennþá er spilaður fót­bolti en önn­ur lönd hafa frestað sín­um deilda­keppn­um um óákveðinn tíma vegna kór­ónu­veirunn­ar.

Íslendingurinn Willum Þór Willumsson spilar í deildinni og skoraði fyrir lið sitt BATE í 2:1-ósigri á Slavia Mozyr í gær en deildin er orðin óvenju vinsæl. Lið frá Hvíta-Rússlandi komast sjaldan langt í Evrópukeppnum og spila engir af bestu leikmönnum heims þar í landi.

Engu að síður hefur hvítrússneska knattspyrnusambandið gert tíu nýja sjónvarpssamninga við erlendar stöðvar sem leita að efni til að sýna áskrifendum sínum. Um tíu milljón manns búa í Hvíta-Rússlandi en aðeins 94 hafa greinst með kórónuveiruna og segist knattspyrnusambandið þar í landi ætla halda áfram að spila fótbolta.

Áhorfendur eru hitamældir þegar þeir mæta á völlinn og þá hefur forseti landsins, Alexander Lukashenko, gert lítið úr alvarleika veirunnar. „Það er betra að deyja standandi en að lifa á hnjánum,“ sagði hann við sjónvarpsmenn eftir að hafa spilað íshokkí og faðmað aðra leikmenn í kringum sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert