Danir ljúka tímabilinu — þrjár sviðsmyndir í gangi

Ragnar Sigurðsson og félagar í FC Köbenhavn eiga 12 leiki …
Ragnar Sigurðsson og félagar í FC Köbenhavn eiga 12 leiki eftir á tímabilinu. AFP

Danir ætla að ljúka sínu keppnistímabili í fótboltanum 2019-20, sama hvaða tafir kunna að verða á því á næstu vikum og mánuðum. Meistarar verði krýndir og klárt verði hvaða lið færist á milli deilda þannig að ekki verði setið uppi á næsta tímabili með afleiðingar af hléinu sem gera þurfti vegna kórónuveirunnar.

Claus Thomsen formaður dönsku deildakeppninnar sagði í tilkynningu sem send var út fyrir stundu að þrjár sviðsmyndir hefðu verið settar upp um hvernig tímabilinu yrði lokið og í öllum tilvikum væri gert ráð fyrir að allir leikir yrðu spilaðir í deildunum, sem og í bikarkeppninni.

„Í þeirri fyrstu gerum við ráð fyrir að byrja í lok apríl og enda tímabilið í lok júní. Í þeirri næstu gerum við ráð fyrir að byrja um miðjan maí og leika fram í miðjan júlí, og í þeirri þriðju reiknum við með að byrja í lok maí og leika út júlímánuð.

Okkar markmið er, eins og hjá öðrum deildum í Evrópu, að spila öll mót til loka og geta á þann hátt útnefnt meistara og fundið út hverjir falla og fara upp um deild. 

Að sjálfsögðu getur ýmislegt haft áhrif á þessar sviðsmyndir. Fyrst og fremst vitum við ekki enn hvenær hægt verður að byrja og síðan koma alþjóðlegu mótin til með að hafa mikil áhrif á framgang deildanna. En grunnskipulagið er klárt, og það er sveigjanlegt svo það er bæði hægt að lengja eða stytta hverja  sviðsmynd fyrir sig,“ sagði Thomsen í tilkynningunni.

Í Danmörku eru tvær umferðir eftir af hefðbundinni keppni í úrvalsdeild karla. Eftir það eiga sex efstu liðin eftir tíu umferðir í baráttunni um meistaratitilinn en hin liðin heldur færri leiki í umspili um sæti í deildinni. Í B-deild karla er þrettán umferðum ólokið en þar er ekkert umspil núna þar sem liðum í úrvalsdeild verður fækkað úr fjórtán í tólf. Í úrvalsdeild kvenna er eftir að leika tíu umferðir í úrslitakeppni um meistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert